top of page

Uppruni / saga

​

Engar ritaðar heimildir eru til um uppruna schnauzer en sú saga sem líklegust þykir er að bændur á 14. öld hafi ræktað hann til þess að taka með sér á markað. Þeir vildu fá meðalstóran hund sem kæmist vel fyrir á vagninum og nógu sterkan til þess að verja vörurnar. 

Heima við var gott ef hann gæti haldið heimilinu og gripahúsum hreinum af rottum og öðrum meindýrum. Arfur frá þessu hlutverki birtist ef til vill í því hve vel honum kemur saman við hesta. 

 

Líklegast er talið að notaðir hafi verið schäfer-púðli, grár keez hundur (spitzhundur) og strýhærður pinscher til þess að rækta hann. Einnig eru kenningar um að hann hafi orðið til við pörun tveggja tegunda sem nú eru útdauðar, strýhærður hundur, hugsanlega terrier-hundur, og bjórhundur frá miðöldum og enn aðrir eru sannfærðir um að schnauzer eigi rætur sínar að rekja til nautgripahunda eins og til dæmis bouvis des flanders, sem er líkur schnauzer í útlit. 

 

Fyrstu heimildir um schnauzer eru í myndum listmálarans Albrecht DÈ•rer sem var uppi 1471-1528. Schnauzer er kallaður mittelschnauzer í Þýskalandi, schnauzer í Bretlandi og ýmist standard schnauzer eða bara schnauzer á Íslandi en út frá honum eru dvergschnauzer og risaschnauzer ræktaðir.

Eðli

​

Schnauzer er mjög skemmtilegur hundur. Hann er líflegur karakter, kvikur, virkur, kraftmikill, sterkur og lipur. Þessir eiginleikar hans og gáfur og glaðlyndi gera það að verkum að gaman er bæði að búa með honum og að þjálfa hann. Schnauzer sem fær rétt uppeldi og þjálfun verður klár og traustur vinnuhundur og félagi. En hann getur líka verið erfiður fyrir fjölskyldur sem ekki geta veitt honum rétta þjálfun. Forvitni schnauzersins og skapandi hugsun gera hann uppátækjasaman og þrjóskan og stundum leysir hann vandamál sem eigandinn hefði viljað látið óleyst. 

 

Schnauzer er hundur allrar fjölskyldunnar og lítur á það sem sitt fyrsta hlutverk að verja hana og eigur hennar. Hann fagnar öllum í fjölskyldu sinni með dillandi gleði og örfáum nánum vinum heimilisins. Aðra þarf að kynna fyrir honum sem vini. Viðbrögð hans, sem varðhunds, eru að halda fólki frá með dimmu gelti en hann ræðst ekki á það. 

 

Schnauzer er vakandi fyrir umhverfi sínu og lætur vita ef breytingar verða en er að öðru leyti ekki hávær. 

 

Schnauzer er einstaklega barngóður fjölskylduhundur sem þroskast best í gegnum samskipti við fjölskyldu sína. Hann hefur ríka sjálfsvirðingu, vill að komið sé fram við sig í samræmi við það og móðgast alvarlega við þá sem stríða honum.

Þjálfun & hreyfing

​

Schnauzer er afar fjölhæfur hundur, yfirvegaður og auðveldur í þjálfun. Nógu lítill til að auðvelt er að vinna með honum en líka nógu krefjandi til þess að það er spennandi og hefur af aðdáendum sínum verið kallaður hundurinn með mannsheilann. Hann er alltaf tilbúinn í vinnu en vinna með schnauzer er samvinna. Hann er samvinnufús en líka sjálfstæður og þolir illa þvingun. Hann vill fjölbreytt verkefni sem reyna á og hann sér tilgang í að gera en finnst ekki gaman að gera sömu brellurnar og æfingarnar aftur og aftur.  

 

Schnauzer hefur mjög þróuð skynfæri og er alhliða vinnuhundur. Hann er til dæmis afbragðs sporhundur og leitarhundur, hefur verið notaður í veiði og fjárrekstur en einnig sem hjálpar hundur og þjónustuhundur. 

 

Schnauzer er grófgerður, sterkur, heilsuhraustur, hefur gott úthald og þolir vel alls kyns veður. Hann er því gott val fyrir fjölskyldur sem stunda útivist og hreyfingu en getur líka komist af með tvær stuttar gönguferðir á dag.

Feldur

​

Feldurinn er tvöfaldur, mjúkur undirfeldur og grófur/strýr yfirfeldur. Lappahárin hjá pipar og salt hundum eru yfirleitt mýkri og ljósari en annars á líkamanum en á svörtum eru þau svört. Einkennandi fyrir schnauzer er skeggið og augabrúnirnar sem slúta yfir augun. 

 

Feldurinn er einlitur svartur á svörtu hundunum. Á pipar og salt hundum er hann úr þrílitaskiptum hárum svörtu/hvítu/svörtu með jafnri dreifingu og gráum undirfeldi og með dökkri grímu sem fellur vel að litnum á feldinum. 

 

Undirfeldurinn er ull sem liggur næst húðinni. Ullin heldur hita á hundunum í miklum kulda og einangrar jafnframt frá hita. Hún vex hraðar en yfirfeldurinn og er skafin reglulega með undirfeldssköfu. Yfirfeldurinn á að vera strýr og glansandi og þarf að reyta á 2–3 mánaða fresti ef litbrigðin og feldurinn eiga að haldast og ef sýna á hundinn. ​ Ef feldurinn er klipptur eða rakaður tapast eiginleikar hans. Hann verður mjúkur og ver hundinn ekki eins vel fyrir veðri og vindum. 

 

Á pipar/salt breytist litaskiptingin á hárunum í að verða einlit ljósgrá og svartur feldur verður oft grár. Ef hugsað er vel um feldinn fer schnauzer lítið úr hárum. Mælt er með vikulegri feldhirðu með því að bursta og skafa yfir feldinn, greiða lappahár og skegg, fyrst með bursta og síðan með stálgreiðu til þess að koma í veg fyrir að flækjur myndist.

bottom of page